νόστος και άλγος και νόστος
(nostos kai algos kai nostos)
Stór hluti af okkar daglega lífi felst í því að sakna og þrá, þrá og sakna.
Með því fylgir alltaf einhver sársauki, því þegar við þráum, þá söknum við og með söknuðinum þá kemur sársaukinn. Eitt af því sem við þráum er fortíðin - „í gamla daga”. Þessi fortíðarþrá er í grunninn einhvers konar heimþrá, vöntun á öryggi. Orðið sem oft er notað yfir þesskonar heimþrá er nostalgía, sem var þar til á 20. Öld skilgreint sem sjúkdómur og hrjáði sérstaklega hermenn á vígvöllum og var oft skrá sem dánarorsök m.a. í Þrælastríði Bandaríkjanna. Heimþrá hrjáir okkur öll einhvern tíma á lífsleiðinni, við söknum öll einhvers. Þessar tilfinningar eru ekki einungis bundnar við heimilið, heldur geta þær líka tengst ákveðnum stöðum eða tímabilum í sögunni. Skálholt og umhverfið í kring er eitt slíkt dæmi. Hér hefur fólk komið og átt sínar bestu (og verstu) stundir. Öll eigum við einhverja minningu af Skálholti, hvort sem hún er raunveruleg eða ímynduð, því Skálholt er hluti af okkar sameiginlega minni. Tónlistin sem varð til í þessu samtali við stað og tíma og rúm er einhvers staðar á milli þess að vera einhver forn ritúal og vögguvísa sem okkur finnst við eiga að muna en getum það ekki. Við þráum að fá að heyra endann en hann kemur aldrei. Enginn texti, bara hljóð, því með texta kemur samhengi og nostalgía er án samhengis. Þar sem við getum öll verið uppfull af þrá og sársauka og söknuði – νόστος και άλγος και νόστος Verkið var pantað af Sumartónleikum í Skálholti fyrir tónlistarhópinn KIMI með stuðningi frá tónskáldasjóði RÚV sem hluti af veru minni sem staðartónskáld sumarið 2020 Frumflutt 12. júlí í Skálholti af KIMI - Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir (sópran), Katerina Anagnostidou (marimba) og Jónas Ásgeir Ásgeirsson |
|